Færsluflokkur: Bloggar
Heimurinn er naflinn á mér! eða svo mætti halda. Ég hef bara ekki nægan tíma til að fylgjast nógu vel með því sem er að gerast utan sjálfsins til að geta sagt mikið af viti um það. Ég verð því að láta nægja að rausa um það sem gerist á mínu heimasvæði.
Allir eru óléttir í dag. Hvert sem litið er blasa við bumbur í mismunandi stærðum og gerðum, það er sama hvort um er að ræða fjölskylduna eða vinahópinn, óléttuveikin smitast mjög hratt. Ég hef ekki enn fengið þessa flensu, dóttur minni til mikillar mæðu. Hún potar reglulega í magann á mér og spáir mikið í hvort hann sé ekkert að stækka. Um daginn ákvað ég að útskýra fyrir henni að ég ætti ekki von á barni í dag og að öllum líkindum ekkert á næstunni heldur. Dóttir mín er 4 ára svo ég notaði myndlíkingu og sagði henni að til að ég gæti fengið barn, þyrfti ég að fá fræ frá manni sem svo yxi og yrði að barni. Henni fannst þetta nú ekki mikið mál, gæti ég ekki bara hringt í pabba hennar og fengið fræ frá honum;) uhm... nei
Samskipti kynjanna og manneskna yfirleitt geta verið flókin, eða raunar mjög einföld þegar maður er 4 ára. Við mæðgurnar sátum heima hjá Fanneyju systur um daginn og sáum þar líka þessa fallegu mynd af þeim hjónum sem tekin var á 50 afmæli systur minnar. Þau voru náttúrulega óskaplega fín og falleg, og dóttir mín segir upprifin "Nei, voruð þið að gifta ykkur!!". Fanney systir sagði henni þá að þau Björn hefðu verið gift síðan elstu menn muna og ég fann gamla giftingamynd þar sem ungu brúðhjónin standa ásamt föður brúðarinnar. Ég sýni dóttur minni myndina og segi henni að þetta sé frá giftingu þeirra hjóna. Hún skoðar myndina áhugasöm og spyr svo systur mína hvort hún hafi ekki viljað giftast heldur hinum manninum. Fanney systir segir náttúrulega nei, þetta sé pabbi hennar og maður giftist ekki pabba sínum. Dóttur minni fannst það frekar skrítið, og ég sagði henni þá að það væri nú leiðinlegt því við (ég og hún) ætluðum að gifta okkur, sem var löngu ákveðið. Þá horfir hún á mig og segir: Mamma við getum ekki gift okkur, Guð segir það á að giftast mað! (kann ekki alveg að beygja orðið maður). Ég horfi á hana og spyr, nú hver segir það. Hann Högni á leikskólanum (líka 4ra). Púff, mikið var ég fegin að það var hann Högni en ekki sonur prestsins (sem einnig er á leikskólanum) því ég er ekki viss um að ég hefði getað sannfært hana um að ég vissi meira um Guðsvilja en prestssonurinn. Ég gerði mitt besta til að sannfæra dóttur mína að Guði væri alveg sama hvors kyns manneskjan væri sem hún giftist svo lengi sem þær elskuðu hvor aðra og væru góðar hvor við aðra. Maður verður að fylgjast vel með ætli maður að ala barnið sitt upp án allra fordóma.
Bloggar | 22.3.2007 | 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú er óðum að styttast í alþingiskosningarnar og líf meðaljónsins (meðal-jóninn verður næstum því meðal ljón ef maður flýtir sér um of;) og Jónunnar litast af því. Gallup leggur mig í einelti og ég fer að hallast að því að ég ein og sér standi að baki hinni gríðarlegu aukningu fylgis Vinstri grænna. Varla er hægt að opna fyrir útvarp, fletta blaði eða kíkja á skjáinn án þess að þar séu stjórnmálamenn með fagnaðarerindið. Mér finnst kosningaerindið misáhugavert en verð að játa að Silfur Egils er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég komst til dæmis að því að það er ansi skemmtilegur norðanmaður í framsóknarflokknum, ég sem var þess fullviss að þeir væru allir hrútleiðinlegir fyrir utan Guðna sem hefur það hlutverk að vera skemmtikraftur flokksins;) Nema hvað, ég sá glitta í Silfrið síðustu helgi. Þar var Siv Friðleifs, sem ég held að hljóti að vera smartasti framsóknarmaðurinn, og hún sagði eitthvað í þá áttina að við ættum besta velferðarkerfið. Kannski getur verið að fólk trúi því í alvörunni ef það þarf ekkert á því að halda en við sem þurfum á því að halda eða viljum sjá það virka erum ekki alveg sammála. Það er mjög fátt sem reiðir mig jafnmikið eins og þegar ég sé hve illa félagsmálakerfið okkar virkar og aðstaða fyrir fráviksbörn er slæm. Biðlistarnir á Bugl, á Stuðlum og úrræðaleysið sem við stöndum frammi fyrir þegar börnin okkar lenda í vandræðum. Hve oft hefði ekki verið hægt að byrgja brunninn ef viðeigandi úrræði væru til staðar. Þessi börn okkar sem þurfa aðstoð af slíku tagi sem þessar stofnanir bjóða upp á eru óhreinu börn Íslands. Við viljum náttúrulega helst ekki til þess hugsa að börn vart komin á táningsaldur geti átt við fíknir og aðra geðsjúkdóma að stríða, eða mæti ekki skólann, eða heimilisaðstæður séu það slæmar að börnin komist ekki í skólann vegna þess að þau hafa skyldum að gegna heimafyrir. Ástandið þarf að vera orðið alveg rosalega slæmt til að gripið sé í taumana og þá fær það í hendur félagsráðgjafi sem hefur kannski 50 önnur mál með höndum og hvergi er pláss til að taka við. Nei, nei... velferðarkerfið virkar alls ekki fyrir þá sem minna mega sín.
Ég hef stundum spáð í það í veikindum dóttur minnar, hvernig væri ef ég hefði það ekki svona gott. Búin að flakka á milli lækna og enda svo í apótekinu með lyfseðil, bíða og svo kemur 15,433.- Það er bara heljarins upphæð fyrir þá sem minna hafa milli handanna.
Ef velferðarkerfið okkar er eitt það besta í heiminum þá vorkenni ég svo sannarlega hinum þjóðunum.
Bloggar | 19.3.2007 | 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Einn samkennari minn, há, grönn og myndarleg kona sagði mér eitt sinn sögu af því þegar hún var í skóla. Bekkjarsystir hennar var að stríða henni sökum þess hve grönn hún var og samkennari minn svaraði fyrir sig með því að kalla hina feitabollu. Getið hvor var send til skólastjórans.
Nú er það þannig að þó að anorexía, búlemía og aðarar átraskanir (svo er náttúrulega spurning hvort offita sé ekki líka átröskun??) séu mjög alvarlegir sjúkdómar þá er það offita sem er að verða algengasti sjúkdómur vesturlanda. M.a. er það talið að árið 2011 muni fleiri deyja í USA af sjúkdómum tengdum offitu (s.s. hjartasjúkdómum og sykursýki) en krabbameini. Enn er það samt hálf tabú að tala um að e-r sé of feitur. Allt í lagi þykir að segja að einhver sé rosalega grannur... en láti maður út úr sér að einhver sé rosalega feitur, þá er maður bara virkilega illa innrættur. Það gildir í vaxtarlagsmálunum sem og öðrum málum, hinn gullni meðalvegur er best fetaður. Ég verð nú samt að segja það þegar snýr að mér og mínum líkama þá er feitt fúlt
Bloggar | 18.3.2007 | 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég gleymi þessu alltaf. Fyrst ég er nú búin að segja frá því hvernig mjólkin fellur neðar og neðar af stalli sínum sem heilsuvara á kennarastofunni, þá verð ég að bæta þessu við... nú er víst komið í ljós að þeir sem drekka léttmjólk geta átt það á hættu að verða ófrjóir, eða alla vega minnkar frjósemin. Herre Gud... ætlar þessu aldrei að linna!!
Það er kannski bara fyrir bestu fyrst við mjólkursvelgirnir erum illa lyktandi og fáum krabbamein að við séum ekkert að fjölga okkur
Bara grín... Bara grín...
MJÓLK ER GÓÐ!!
Bloggar | 17.3.2007 | 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þannig er mál með vexti að hún mamma mín á líka kisu. Hún er óskaplega feit og kolbikasvört, og lík uppeldismóður sinni í skapi (urrar og hvæsir á alla þá sem henni líkar ekki við;). Ég var náttúrulega alveg miður mín yfir því að þurfa að láta Garp frá mér, grét úr mér augun í gærkveldi og morgun og fannst lífið alveg óskaplega óréttlátt, sbr. skrif mín hér að neðan. Nema hvað, ég náttúrulega fór í vinnuna í morgun og stóð mína pligt. Ég fór heim í hádeginu og vitiði hvað. Mamma hringdi og bauðst til að taka Garp. Kisan hennar var orðin eitthvað lasin, hélt hún og henni fannst alveg ómögulegt að við Fanney værum hér skælandi yfir kattamissinum svo hún sendi sína kisu "í sveitina" og tók Garp. Nú get ég skroppið og heimsótt hann og klappað og knúsað hvenær sem ég vil. Það er reyndar soldið tómlegt í rúminu, en aldrei er að vita nema ég geti bætt úr því;) Svona leysast málin stundum. Ég er reyndar með smá samviskubit yfir að hafa þegið þessa lausn mála en veit betur en að reyna að þræta við móður mína og reyna að sannfæra hana um að hún hafi rangt fyrir sér.
Hinir og þessir eru nú að viðra skoðanir sínar á launaleyndinni eða launaopinberuninni. Flestir virðast þeirrar skoðunar, alla vega þeir sem viðra þær sem ég sé, að ekki sé góð hugmynd að afnema launaleyndina, og að þessi framkvæmd eigi að vera e-s konar vopn í baráttu kvenna fyrir bættum kjörum. Ég hafði ekki hugsað svo langt. Reyndar hvorki heyrt né séð mikið um málið, fyrir utan manninn frá atvinnurekendum (sem var frekar halló í sjónvarpinu) og svo hina og þessa pistla frá þeim sem ósammála eru afnáminu.
Ég er þeirrar skoðunar að því færri leyndarmál sem eru í samskiptum fólks því betra. Ég skil ekki alveg af hverju það er svona hræðilegt að hafa launamálin og tölurnar á yfirborðinu. Mér finnst alveg sjálfsagt að þeir starfsmenn sem mikilvægir eru og hafa ábyrgð fái greitt skv. því. Mér finnst líka alveg sjálfsagt að fólk geti séð og metið hversu mikilvægt það er í samanburði við aðra. Ég er eiginlega bara alfarið á móti leynimakki og samkurli, hvaða nafni sem það nefnist. Ef atvinnurekendur vilja borga einhverjum hærri laun en öðrum þá er það bara allt í lagi, þeir geta haft hvaða ástæðu sem þeir vilja fyrir því, jafnvel bara, ef þeim sýnist svo, en af hverju þarf það að vera leyndarmál. Er ánægja fólks í starfi yfirleitt ekki betur fest í sessi en svo að fávísin tryggir sæluna?? Mér er bara spurn?
Bloggar | 17.3.2007 | 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stundum er lífið of ótrúlegt til að geta verið satt. Fyrr í vetur kom í ljós að Fanney er með ofnæmi fyrir köttum. Ég streyttist við að trúa þessu. Hvernig getur þetta barn haft ofnæmi fyrir köttum? Hún var vart komin heim af fæðingardeildinni þegar hún hitti Kisa sem samviskusamlega passaði hana og allt sem henni viðkom. Hvernig getur það átt sér stað að allt í einu sé hún bara komin með ofnæmi. Ég er yfirleitt þeirrar skoðunar að dóttir mín sé eingetin. Alveg er sama hvort um útlit eða innræti er að ræða, hún er alveg eins og ég og mínir, nema að þessu leyti. Það kom nefnilega í ljós að asmi, ofnæmi, exem og svoleiðis er algengt í föðurætt hennar.... og hún fæðist inn í fjölskyldu kattakvenna. Í stuttu máli sagt verður Garpur sem sagt að fara til Guðs. Ég er búin að eiga hann í 8 ár, og hann hefur fylgt mér í gegnum súrt og sætt, frá því að ég ferðaðist með hann lítinn kettling yfir hálft landið. Ég hef alltaf átt kisu, svo langt aftur sem ég man. Ég hef misst þær flestar undir bíl og 1999 var ég búin að fá nóg af missi og ákvað að fá mér hund. Hundinn átti ég í 10 daga þegar ég gaf hann fjölskyldu sem allt vildi fyrir hann gera og hafði nógan tíma til að sinna honum. Ég er nefnilega kattakona. Ég varð að bíta í það súra... og kom heim með Garp. Fyrst bjó hann hjá mér á Eiðum og svo höfum við búið saman á 3 stöðum í bænum. Honum tókst að verða að inniketti þegar við fluttum á Kleppsveginn og aðlagast hverjum þeim stað sem við höfum verið á. Það er ömurlegt að loksins þegar mér tekst að halda ketti undan bílum verði ég að láta lóga honum!
Kaldhæðni örlaganna. Foreldrar mínir voru mestu hæfileikamanneskjur. Pabbi minn snillingur í stærðfræði og meðferð móðurmálsins og mamma hin mesta tungumálamanneskja. Ég fékk minn skerf af öllu þessu. Báðir foreldrar mínir voru líka einstaklega músíkalskir. Pabbi söng í kór og einsöng á plötu og mamma spilar á hljóðfæri eftir eyranu. Ég er alin upp við það að mamma sat við píanóið og pabbi söng. Ég erfði það að hafa óskaplega gaman að tónlist og einstaklega gaman að syngja... en enga hæfileika, hvorki á sviði söngs né hljóðfæraleiks (og trúiði mér... ég hef reynt!!). En svona er það víst, maður getur ekki fengið það allt.
Á morgun þarf ég að kveðja hann kisa minn, góðan vin minn til 8 ára. Ég á svo eftir að sakna þess að finna ekki mjúkan feldinn við kinnina á mér koddanum og knúsa heita lifandi bangsann minn.
Bloggar | 15.3.2007 | 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svo virðist vera sem Íslendingar séu hver af öðrum að springa úr réttsýni. Alla vega í orði, og nokkuð á borði. Klám sést í hverju horni og er mótmælt hástöfum. Ekki sést samt þessi réttsýni í dómum yfir kynferðisglæpamönnum sem mér þykir verra. Eitt er það sem undrar mig öðru fremur þessa dagana en það er sú staðreynd að Íslendingar sem þjóð virðist samþykkja unglingadrykkju. Lítið sem ekkert hefur verið gert til að draga úr unglingadrykkju síðan ég var unglingur og sjálfsagt þótti að drekka sig blindfulla/n á hverju menntaskólaballi. Einhverjir hafa reynt að vekja foreldra með auglýsingum "er pabbi dílerinn þinn?" og eitthvað álíka. Svoleiðis pésar og auglýsingar held ég samt að hafi lítið að segja á meðan menntaskólaböllin eru enn þá vettvangur mikillar drykkju og sukks ungmenna. Drykkjan og forvarnir gegn henni virðist einhvern veginn hafa setið á hakanum. Þegar ég svíf á bleiku skýi aftur til unglingsáranna þá þótti t.d. sjálfsagt að reykja innan menntaskólanna og unglingarnir gátu sjálfir án nokkurra vandkvæða keypt sér sínar rettur. Í dag má ekki einu sinni reykja á skólalóðunum, hvað þá meira. Ég bara spyr, er ekki tími kominn til að úthýsa áfenginu af menntaskólaskólaböllunum???
Ég er alveg jafn týnd í íbúðamálunum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það borgar sig að klára skólann áður en ég ræðst í meiri háttar breytingar á lífinu. Svo er líka svo erfitt að samræma þarfir okkar mæðgna. Ef ég er alveg hreinskilin við sjálfa mig þá langar mig náttúrulega að flytja aftur í bæinn. Ég hef einhvern veginn ekki alveg náð því að það sé fínt að búa við Laugardalinn. Fyrir Fanneyju er náttúrulega skemmtilegast að vera í nágrenni við önnur börn, hafa stutt í skóla o.s.frv... Böh... þetta er allt of erfitt!!
Bloggar | 10.3.2007 | 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef mikið verið að velta íbúðum fyrir mér síðastliðna daga. Ég er komin með fiðring og langar annað hvort að flytja eða ráðast í gagngerar breytingar á íbúðinni minni. Ég á samt í stökustu vandræðum með að ákveða mig. Ég hef alltaf verið voðaleg miðbæjarrotta og litið á allt fyrir utan 108 sem sveit og þá algjöra hillbillies sem búa þar. Svo hef ég aðeins verið að skoða á netinu og varð pínu skotin í íbúð í Kórahverfi í Kópavogi. Íbúðin er í Perlukór (rosaflott nafn, slær samt ekki út Bjargarstíg...), með sérinngangi og litlum garði í litlu fjölbýli, nálægt grunnskóla og íþróttaakademíunni (sem er að rísa). Þetta leit allt svo ótrúlega vel út á myndum og í máli. Ég var með algjöran njálg í kvöld (enda próf á morgun) og dreif mig því í bíltúr, byrjaði í ísbúðinni í vesturbænum, sem var full út úr dyrum... og keyrði svo sem leið lá í Kóp. Þótt ótrúlegt megi virðast þá tókst mér að rata nokkurn veginn og vil ég þakka það henni Svövu frænku minni sem býr e-s staðar í Salahverfinu, því Kórarnir eru nokkuð bein leið þaðan. En svona þegar ég nálgast áfangastað fara nú að renna á mig 2 grímur.... Það er ennþá snjór hér!! Það verður að teljast svolítill ókostur fyrir sólardýrkandann og kuldaskræfuna mig. En ég verð að viðurkenna að þetta ansi smart hverfi og flott hús. Já, og ég er í alveg jafnmiklum vandræðum með hvað ég á að gera.
Ég horfði á fréttirnar í kvöld, sem heyrir til mikilla tíðinda;) Sá ég þá ekki að verið var að ræða um að afnema launaleynd. Viðtal var tekið við einhvern forkólf atvinnurekenda sem fann þessari hugmynd flest til foráttu. Taldi hann m.a. að slíkt afnám leiddi til slæmst andrúmslofts á vinnustöðum. Ég skil ekki alveg málið. Ég held að atvinnurekendur séu bara hræddir við að opna bækur sínar því að þá komi í ljós að ekki er verið að greiða fólki laun eftir hæfileikum og vinnuframlagi og þá missi þeir líka mikilvægt tæki í mannauðsstjórn sinni. Því ef Sigga fær 10.000 þús kall auka verður hún rosaánægð, þó hún megi engum segja. Hún yrði pottþétt ekki eins ánægð ef hún vissi að Siggi fengi 20.000 kall auka. Sagði ekki einhver... sælir eru fáfróðir... eða eitthvað álíka?? Ég held að með afnámi launaleyndar verði mórallinn á vinnustaðnum miklu heiðarlegri, og gagnsærra verði fyrir hvað er borgað.
Og áfram um launamálin. Ég heyri því fleygt að margir grunnskólakennarar hyggist segja stöðum sínum lausum í vor af ótta við komandi kjarabaráttu. Þá verðum við nú í slæmum málum.
Bloggar | 8.3.2007 | 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það hefur verið nokkuð ljóst frá haustdögum að fengitíð var góð í sumar og haust og uppskeran kæmi í ljós á vordögum. Von er á mikilli barnasprengju í Laugalæk, 4 kvenkyns kennara eiga von á sér, einn karlkyns á von á tvíburum og tveir fyrrverandi kennarar eru líka óléttir. VÁ... ekki nóg með það heldur eru líka 2 börn (sem vitað er um) á leiðinni í náminu mínu og svo kemur Brynhildur frænka með litla frænku handa okkur fljótlega. Það er ekki laust við að það fari aðeins um eggjastokkana;) En fyrsti pakkinn var opnaður í gær og þegar hún Linda sem kennir með mér eignaðist litla stúlku, 13 merkur og 49 cm. Til hamingju með litlu prinsessuna Linda!!
Öll þessi börn sem von er á eru svo heppin að hafa báða foreldra hjá sér og eiga möguleika á að vera heima í faðmi foreldranna í 9 mánuði. Í blaðinu í dag er einmitt minnst á þetta hrópandi óréttlæti sem börn sem fæðast í eins foreldris fjölskyldu (púff, þetta var erfitt) eiga þess einungis kost að vera heima hjá foreldri í 6 mánuði. Ég man eftir þegar ég var með Fanneyju litla hvað mér fannst þetta óréttlátt. Vonandi verður eitthvað gert til að jafna rétt þessara barna.
Ég hef verið að spá í það undanfarna daga hve margir eru farnir að ganga með nafnspjöld, eða svona einkennisspjöld með mynd og nafni o.þ.h. Ég sé svo marga í HR sem ganga um með svona spjöld. Ég geri ráð fyrir að þetta tengist vinnunni, séu kannski einhverskonar lyklar, en hélt fyrst að þetta væri til að geta skilað fólkinu heim ef það rataði ekki, kannski eftir djammið eða of marga á local pöbbnum;) Mér finnst þetta samt skemmtilega skrítin þróun. Náttúrulega er þægilegt þegar allir eru vel merktir, þá tekst manni t.d. að fela ómanngleggni(?) eða getur lesið á spjaldið og notað upplýsingarnar sem þar eru til að hefja samræður þar sem nú allir eru hættir að reykja og ekki hægt að fiska spjall með að sníkja rettu eða eld. T.d. "já, ert þú að vinna í .... ég þekki einmitt eina þar, þekkir þú kannski...." já, eða... "nei, heitir þú.... en hvað það er sniðugt, stjúpfrænka ömmusystur minnar hét líka... eruð þið kannski skildar??";)
Svona að lokum, hafið þið séð þennan:
Bloggar | 7.3.2007 | 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Já maður dundar ýmislegt þegar hanga þarf heima... Ég kíkti inn á tickle sem ég skoðaði nú ansi vel þegar unglingaveikin var að ganga yfir... en það má nú enn skemmta sér vel þar;) Ég tók nokkur próf og komst nú svo sem ekki að neinu sem ekki var vitað;) t.d. er ég lík...
Kate Hudson (hún er samt soldið sætari... en bara soldið;)
Kate Hudson lights up every movie she's in whether she's following the band or trying to lose a hot guy. She's just so likable! And guess what? You are too. Like Goldie's golden daughter, you've got that certain sweet, girl-next-door quality that shines through everything you do.
Charming and caring, you're comfortable in your own skin and your fans are likely to feel better just being near you. You're certainly no spotlight-stealing diva. In fact, we bet you're more often called upon to play the best supporting actress. Your friends know you'll always be there for them, which is why they've got your back too.
... og þetta var nú löngu vitað...Björg, your OC crush is Ryan
While he's not exactly the boy next door, he sure is a hottie. And you heard it here first: You and Ryan are a match made in OC heaven. Like your feisty and fiery crush, you've probably got a bit of a wild streak that sets you apart from the rest of snooty Newport Beach or anywhere else you happen to hang.
An independent spirit, you're not one to follow in the steps of the herd. No sir. You do your own thing and trust your gut on important matters. Lucky for you, it's usually spot on. And that's what makes you such an awesome addition to the OC or any scene. So, keep staying true to yourself. You're sure to be a star.
Jæja best að fara að gera eitthvað af viti
Bloggar | 5.3.2007 | 23:21 (breytt kl. 23:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Tenglar
Shop till you drop
Bloggvinir mínir
- Hafdís egilsstaðapæja fréttir að austan;)
- Fía pía sæta frænka Þetta er í genunum;)
- Kibba sæta Kristjana vinkona
- Linda sæta
- Ásta vinkona
Tenglar
- Kroppurinn í form
- Ef þið hafið ekkert betra að gera;) Tickle prófin
- Stærðfræðiorðabókin Ertu að lesa enska stærðfræði??
- Grafateiknir Forrit sem teiknar gröf
- Tær snilld
- http://
- Draumurinn Mig dreymir, ég óska...
- áhugamál ég safna og ég safna og ég safna
- Borgar sig að fylgjast með... Tíska, strákar, matur, strákar, snyrtivörur...
- Skólinn minn
- Hinn skólinn minn Flott stelpan, mar...
- Sumarfríið mitt;) Hingað erum við mæðgurnar að fara í sumar;)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar