Færsluflokkur: Bloggar
Ætlar þessu aldrei að linna... hringt var frá leikskólanum um hádegið í dag. Fanney aftur orðin veik, komin með hita og læti, svo við vorum heima eftir hádegi. Frekar dapur dagur, en það eru alltaf þessi litlu atriði sem lyfta manni upp... eins og til dæmis mismælin sem fólk lætur út úr sér. Matseðill skólans var til umræðu í einum 10. bekknum í morgun. Kom í ljós að nemendur eru misánægðir með matinn og finnst hlutfall unna kjötvara helst til mikið. Við ræddum þetta nokkuð og ég sagði að t.d. fiskur ætti nú ekki alltaf upp á pallborðið hjá nemendum, þá sagði eitt gáfnaljósið... En er ekki fiskur unnin kjötvara;) Ég var svo heppin að fá pössun og komst í tíma. Við erum að byrja í tölfræði og kennarinn tók smá dæmi varðandi gagnatöflu, hann skipti okkur í hópa eftir því í hvaða bæjarfélagi við byggjum. Smám saman komst lag á töfluna og upp var komin Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Grindavík, Keflavík, Selfoss, Akranes, Seltjarnarnes og Hafnarfjörður. Eitthvað var rætt um fjölda í hverju bæjarfélagi og þess háttar. Segir þá ekki eitt gáfnaljósið... en hvað með Breiðholtið, býr í alvörunni enginn í Breiðholti... HALLÓ... stundum verð meira að segja ég orðlaus...
Aftur að umræðunni um mjólkina og meinta óhollustu hennar... Á kennarastofunni var því haldið fram að við sem neytum mjólkur lyktum öðruvísi... að t.d. Asíubúar sem upp til hópa eru með ofnæmi fyrir mjólkursykri og neyta því ekki mjólkurvara, finni bara þvílíkan fnyk af okkur, ojojojojoj... ekki smart.
Bara svona ef þið eruð að spá í hvort ég sé alveg á leiðinni yfir um þá var ég nú bara að djóka með þemað fyrir ferminguna;)
Já og ég fékk að vita það að Davíð Þór er á föstu með líka indælis stúlku að austan...
Bloggar | 5.3.2007 | 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er sérstakur aðdáandi Davíðs Þórs. Alveg frá því að hann var í tvíeyki með Steini Ármanni (sem nota bene er frændi minn (frekar fjarskyldur frá Borgarfirði Eystri, afi minn og langamma hans systkini), ekki skrýtið að ég skuli vera svona fyndin;) frekar langsótt og fjarlægist Davíð Þór óðfluga.... en hann var í Blaðinu í gær í viðtali um klám og tvískinnung íslensku þjóðarinnar, sem ég er svo ótúlega sammála og svo pistlar hans aftan á Fréttablaðinu, frábær skrif og pot í íslensku þjóðarsálina. Um daginn skrifaði hann um fíkniefnasala og hvernig lenging dóma yfir fíklum væri kannski ekki rétta ráðið til að snúa þeim til betri vegar. Í dag hélt hann svo áfram með umræðuna og benti á þá staðreynd að ef áfram héldi sem horfði þyrftum við að bæta Litla-Stokkseyrarbakkahraunskaupstað á kortið. Einnig bendir hann á þá staðreynd að miklu fleiri hafi eyðilagt líf sitt á áfengi en nokkurn tímann eiturlyfjum og klikkir út með því að séu fíkniefnasalar hryðjuverkamenn séu áfengisverslanir hreinræktaðar útrýmingarbúðir. Drengurinn er ótrúlega vel máli farinn og rökvís. Var ég búin að taka það fram að ég er aðdáandi... ég hefði líka gjarna vilja sjá hann meðal hinna kynþokkafyllstu;) ætli hann sé á lausu?? Nei, djók;)
Annars er ég farin að kvíða því að skólanum ljúki. Hvað á ég þá að gera????? Nú er stærðfræðigeiningunni að ljúka með tilheyrandi diffrun, tegrum, markgildum... þá eru einungis eftir tölfræði og algebra og ég klára í maí. Hvað þá?? Ég er strax farin að spá í endurbótum á íbúðinni minni eða skipta bara um íbúð. Ég veit ekki. Mér finnst framtíðin alltaf vera óskrifað blað, á svo erfitt með að ákveða í dag hvað mig langar að gera á morgun. Jæja den tid den sorg...
Annars eru fermingarnar á næsta leyti og ég strax farin að skipuleggja hvaða þema við Fanney ætlum að hafa í fermingarveislunni hennar. En hvað er málið með þessa borgaralegu fermingu. Mér finnst það algjört rugl. Víst er fínt að krakkar fari á námskeið í siðfræði og slíku, sem ég reyndar held að við kennum þeim ágætlega í grunnskóla, en alltaf má víst siðfræðast betur. Fermingin er staðfesting á skírninni og þeir sem ekki eru skírðir eða ekki hafa áhuga á slíkri staðfestingu fermast ekki, nokkuð augljóst, en til hvers að hafa veislu og finna sér aðra leið til að hafa peninga af vinum og ættingjum. Væri ekki bara heiðarlega að senda út gíróseðla??
Mikið finnst mér gaman að sjá að uppáhalds talan mín er orðin að bíómynd. Ég á reyndar eftir að sjá hana en... ég á afmæli 23. maí, eða 23.5. 2,3 og 5 eru fyrstu frumtölurnar svo er ég fædd 72 og í sjöunni næ ég einni frumtölunni í viðbót. Hallinn á möndli jarðar er 23,5 gráður (og trúiði mér, allir nemendur mínir vita það). Alltaf þegar ég á að velja mér tölu vel ég 23 og það hefur oft reynst mér vel (reyndar ekki unnið Lottóið enn þá, en það hefur eflaust meira með það að gera að ég spila ekki;). Þegar talan er googluð kemur líka í ljós að við hana eru tengdar hinar ýmsustu kenningar í gegnum tíðina.
Bloggar | 4.3.2007 | 23:00 (breytt 7.3.2007 kl. 23:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kennarar eru einstaklega meðvitaður um heilsu og allt sem henni viðkemur. Á kennarastofunni hafa gengið hinir ýmsustu kúrar og heilsuátök, með tilheyrandi umræðum og tilvitnunum í hina og þessa spekinga. Danski kúrinn er búinn að vera heitur lengi og enn mjög inn. Lífrænt ræktað hitt og þetta þykir líka hið besta fyrir líkama, sál og heilsu. Við sem einstaka sinnum laumum einum sykurmola í kaffið eða upp í okkur erum litin hornauga og fáum oftar en ekki smáræðu með kaffinu. Það verður samt að teljast eitt af undrum veraldar hve fljótt sælgætið og súkkulaðið sem skylda er að koma með eftir utanlandsferðir hverfur af kennarastofunni. Maður verður að hafa skjótar hendur ætli maður að næla sér í mola. Nægur formáli.... á föstudaginn var nefnilega verið að tala um það hve mjólk væri óholl fullorðnu fólki. Sýnt hefði verið fram á tengsl brjósta- og blöðruhálskrabbameins og neyslu mjólkur og mjólkurvara. Þetta finnst mér ekki smart enda neyti ég mikillar mjólkur og hef alltaf gert og með hinni bestu samvisku þar sem ég hélt að ég væri að koma í veg fyrir beinþynningu á efri árum... en nei... það er vandlifað í þessum heimi.
Önnur umræða sem skók kennarastofuna á föstudaginn var umræða um kynþokka. Einhver hafði heyrt af því að Einar Oddur þingmaður og Haraldur veðurfræðingur hefðu komist á blað með kynþokkafyllstu mönnum landsins. Það var einróma álit kennarastofunnar og þá bæði kvk og kk kennara að þetta hlytu að vera mistök eða skilgreining kynþokka breyst og gjörsamlega farið fram hjá okkur. Kom on.... það fór einnig nettur fiðringur um kennarastofuna þegar skoðuð var auglýsingin um nýjustu mynd Hugh Grant... og samþykkt að þar væri sannur kynþokki á ferð og við þyrftum endilega að drífa okkur á þá mynd (reyndar voru það bara kvk kennararnir sem tóku þátt í þeirri umræðu;) En það verður að segjast... rosalega er hann sætur;) Hann er undantekningin sem sannar regluna um Breta... að þeir séu upp til hópa hvítir, mjórir, tannlausir... aka einstaklega ófríðir.
Við mastersnemarnir í HR héldum okkar óformlegu árshátíð í gærkveldi. Hátíðin var haldin á DOMO enda við einstaklega Hip og Kúl hópur. Það verður að segjast eins og er... Domo er rosalega flottur staður og þjónustan til fyrirmyndar. Við höfðum á undan okkur sent hvað við hygðumst borða og því gekk allt mjög smurt fyrir sig. Í forrétt fékk ég mér langeldað andalæri... það var mjög vel útilátið en helst til salt fyrir minn smekk en samt mjög braðgott, í aðalrétt var nautalund, omg... hún var æði, passlega mikið (lítið) elduð og kjötið svo meirt að það hreinlega bráðnaði á tungunni. Í desert var svo súkkulaði "cup cake" hrikalega góð. Fyrir herleg heitin borgaði ég um 8000 kr. en það var vel þess virði. Hinir aðeins eldri og íhaldssamari söknuðu kartaflna með aðalréttinum en þar sem ég hef aldrei verið neinn sérlegur aðdáandi jarðepla var ég alsæl með kjötið og arfann sem var með;) En eins og ég segi, þjónustan frábær og rosalega góður matur. Ég ætla endilega að reyna að koma Laugalæk líka þangað á árshátíð og fá mér aftur nautalund;)
Bloggar | 3.3.2007 | 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hún dóttir mín er yndisleg... það er löngu vitað;) Þriðji heimilismeðlimurinn er ferfættur og loðinn og orðinn vel miðaldra í kattaárum. Hann heitir Garpur og er stór og feitur. Samband Fanneyjar og Garps hefur gengið svona upp og niður í gengum árum, mest hefur verið um samkomulag að hvorugt snerti hitt. Á tímabili var hálfgert stríðsástand. Fanney togaði í rófuna, eyrun, fæturna, potaði í augun, eyrun... svo stækkaði hún aðeins og fór að labba, þá náði hún sér í sprautu, úðabrúsa og slíkt og sprautaði á köttinn. Grarpur var alveg að gefast upp og gerði gagnárás, kom sér fyrir í leyni og þegar Fanney kom hjá sló hann hana með loppunni. Þau gerðu þá með sér samkomulag og ástandið á heimilinu róaðist aðeins. Nú hefur Fanney enn stækkað og komst að því um daginn að hún getur haldið á kettinum (sumir myndu nú kannski kalla það draga köttinn, alla vega þegar hún er búin að vera með hann í smá stund og hendurnar eru komnar um höfuðið;). Nú getur Kisi greyið hvergi verið í friði. Ef Fanney sér hann á fótum dröslar hún honum upp í fangið og ber hann hingað og þangað um íbúðina, setur hann í vagninn sinn. Ef ég hlægi ekki svo mikið þegar ég horfi á aðfarirnar myndi ég kannski reyna að bjarga kettinum... en ég stekk til þegar hann verður blár í framan;)
Hún er dóttir mín er ótrúlega dugleg að bjarga sér. Sagt er að neyðin kenni naktri konu að spinna og nú er svo komið að neyðin hefur kennt dóttur minni á VOD skjáinn. Rosalega var ég stolt af henni þegar ég komst að því að hún gat sjálf valið sér mynd úr Fría Barnamyndaflokknum... Rosalega var ég ekki ánægð þegar ég komst að því að hún var farin að velja sér myndir úr Barnamyndaflokknum... sem þarf að borga fyrir. Ég er náttúrulega alltaf að læra. Í upphafi vetrar fengum við okkur mæðgurnar Skjáinn og horfum stundum á Cartoon Network og Disney Channel. VOD (Video on Demand) fylgir með og er svona videoleiga heima í stofu. Maður getur valið sér mynd og borgar fyrir hana á næsta símreikningi. Í VOD hluta skjásins er líka ókeypis efni, og mikið af skemmtilegu barnaefni. Þegar ég er heima hef ég hjálpað henni að finna mynd, en eins og sönnum kennara sæmir líka kennt henni að fara inn á ókeypis efnið svo hún geti bjargað sér sjálf (og ég lært). Þannig er mál með vexti að barnapíurnar kunna ekki á skjáinn. Dag einn var Fanney að sýna þeim skjáinn og rakst þá á annað orð sem byrjaði á B... og það var Barnaefnið sem þarf að borga fyrir. Hún var náttúrulega voðalega spennt yfir þessum nýju myndum og horfði óspart. Ég var voða glöð fyrir hennar hönd og mjög ánægð með Skjáinn að hafa bætt svona mörgum myndum inn á ókeypis svæðið... svo komst ég að því (um 10 myndum of seint) að hún var ekki að horfa á ókeypis efnið, heldur efnið sem þarf að borga fyrir. DÖH.. ég þarf auðsýnilega að taka augun úr bókunum öðru hverju og spá í hvað dóttir mín er að gera.
Það fæddist eitt gullkorn í tíma í dag... Nemendur voru að fara í skólakynningu í FÁ. Einn nemandi spurði mig... Björg, hvar er fjölbrautarskólinn í Ármúla?? HEHEHEHEHEH...
Bloggar | 27.2.2007 | 23:22 (breytt kl. 23:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
og ég sem var að komast í gang;) Við mæðgurnar höfðum það náðugt um helgina, ég var náttúrulega aðeins að kenna og Fanney fór í mat til föðurfjölskyldunnar og ég hafði það náðugt með spennubókinni sem ég er að lesa. Hvurslags er þetta eiginlega. Fyrir nokkrum árum hefði það talist til tíðinda... laugardagskvöld, ekkert þannig séð að gera, hvað gerir maður þá... auðvitað djamma..... uhm, nei, heima að lesa... engin furða þó að ég eigi engan mann... eða hvað, vonandi er það ekkert annað;) Sunnudagurinn var líka mjög skemmtilegur, við sváfum frameftir og fórum svo beint í amli. Venus Sara var 3ja og boðið var í brunch. Þegar amlið var búið buðu Venus og Berglind Fanneyju í Leikhús til að sjá hina alræmdu Karíus og Baktus. Ég var reyndar búin að ákveða að Fanney fengi aldrei að heyra um þá félaga því ég fæ enn hroll þegar ég hugsa um lagið á plötunni. úúú... hræðileg örlög litlu kallanna.
Sunnudagar eru orðnir hinir bestu tv dagar, Boston Legal og Dexter... I lov it mar...
Ímyndunaraflið er alveg farið á fullt með nýja eldhúsið mitt. Já eða ætti ég kannski að segja eldhúsið sem ég ætla að fá;) Ég er búin að fá mann í að brjóta niður vegginn og svo sá ég ofurflotta innréttingu í EGG með eyju og flottustu viftu sem ég hef nokkurn tímann séð... eins og kristalsljósakóróna. Ótrúlegt! Þannig að ég er mjög heit fyrir iðnaðarmönnum þessa daga;)
Bloggar | 25.2.2007 | 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja, þá getur landinn tekið gleði sína á ný, klámráðstefnan verður ekki haldin hér á landi. Ég efast samt ekki um það eitt augnablik að nú sitja margir unglingspiltar votir um hvarmana og harma það að fá ekki að líta klámmyndastjörnu augum;). Þó að ég hafi mínar skoðanir á þessu máli finnst mér samt alltaf gaman að sjá þá samstöðu sem Íslendingar geta sýnt þegar þeir virkilega vilja. Skiptir þá ekki máli hvaða stjórnmálaflokki, kyni eða kynslóð þeir tilheyra. Mikið væri gaman að sjá þessa samstöðu á fleiri sviðum, t.d. þegar olíufélögin eða aðrir taka okkur í óæðri endann. Ég er nú samt á því að áður en við meinum fólki með hreina sakaskrá inngöngu í landið sökum tengsla þess við klámframleiðslu ættum við að fjarlægja klám úr hillum verslana.
Annar í vetrarfríi var í dag. Gærdagurinn var ekki algildur vetrarfrísdagur hjá mér þar sem ég þurfti náttúrulega að mæta í námið mitt, en við mæðgurnar tókum algjöran frídag í dag. Sváfum fram eftir og höfðum það kósí. Great minds think a like... sagði einhver, það sannaðist í dag. Við Berglind vinkona mín höfum verið hálfsamvaxnar þessi 2 ár í náminu og unnið mikið saman. Hún sagði mér um daginn frá þessari líka fínu bílaþvottastöð í túnfætinum hjá mér. Þar sem ég var í fríi í dag ákváðum við mæðgurnar að láta skola af bílnum, það er nú svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað ég væflast þarna um túnin og finn ekki blessaða þvottastöðina, ég hringi þá náttúrulega í Berglindi til að fá nánari staðsetningu á staðnum. Hún segir það ekki málið að leiðsegja mér, ég skuli bara halda áfram og beygja næst til hægri... Hún var í bílnum fyrir aftan mig!!!
Mikið vildi ég að við Íslendingar gætum sagt stafsetningarvillupúkanum stríð á hendur. Við mæðgurnar fórum á McDonalds í hádeginu. Mikið vildi ég að mér hefði tekist að ala dóttur mína upp með menningarlegan og fágaðan matarsmekk svo við hefðum frekar farið á stiks and sushi eða einhvern álíka stað, nei, hún er alveg föst í alheimsvæðingu milli/lágstéttarinnar og vill helst ekkert fara nema á McD. Það er svo sem allt í lagi, ég treysti á það að hún vaxi upp úr þessum ósið og stundum tek ég lærdómsbækurnar með mér og læri meðan hún leikur sér í leiktækjunum á McD í skeifunni sem mest aðdráttaraflið hafa. Nóg um það... McDonalds hefur bætt við eftirréttaúrvalið hjá sér og alls staðar stóð með stórum stöfum NÝJIR EFTIRRÉTTIR.... Hvað er þetta með j-ið. Ég veit að þetta er náttúrulega einstaklega skemmtilegur stafur og nafnið mitt má alls ekki missa hann, en com on... þetta er ekki flókið... ekkert joð ef i kemur á eftir. Ég skil ekki hvernig þessi blessaða ambaga kemst alltaf í gegn. Það er ekki nóg með að McDonands klikki á þessu heldur gerir það annar hver auglýsandi.
Fyrst ég er nú byrjuð í kennarahamnum þá læt ég hér fljóta einn með, hafðan eftir gamalli kempu í faginu þegar rætt var um mikilvægi skilnings nemanda... Huh... skilningur nemenda, sá skilningur sem mest sést hjá nemendum er misskilningur, hahahahahahah;)
Öskudagur á Lækjarborg. Sjáið allar prinsessurnar! Fyrir ykkur sem ekki vitið þá er samt ekkert bleikara en búningsklefi 4-6 ára í ballett;)
Bloggar | 23.2.2007 | 23:13 (breytt kl. 23:20) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mikið hefur verið rætt um fyrirhugaða klámráðstefnu á kennarastofunni síðustu daga. Flestir þar eru rétttrúaðir feministar og gjörsamlega mótfallnir slíkri ráðstefnu hér á landi. Mér finnst samt svo mikill tvískinnungur í þessari umræðu. Ísland hefur hingað til ekki staðið sig sem best í baráttunni gegn kynferðisglæpum (margir eru mótfallnir klámráðstefnunni af þeirri ástæðu að hún ýti undir mansal o.fl. kynferðisglæpi)eins og dómar í þeim málum sýna. Einnig finnst mér ef að klám er undirrót alls hins illa hér í heimi ætti náttúrulega að banna allar stöðvar sem sýna klám (sérstaklega "adult channels" á hótelum) og fjarlægja allar klámmyndir bæði af leigum og úr verslunum. Ég er ekki að mæla klámi bót, heldur finnst mér betra að hafa þessa hluti fyrir opnum tjöldum svo hægt sé að fylgjast með. Nokkuð ljóst er að ef klám væri algjörlega bannað alls staðar í heiminum þá yrði bara svartamarkaðsbrask með vöruna. Í löglegu klámi er fullorðið fólk sem er fullfært um að bera ábyrgð á eigin lífi. Þrælahald nútams er ekki bundið við klám, sífellt berast hræðilegar fréttir af börnum sem vinna í verksmiðjum frá morgni fram á nótt á lúsarlaunum. Ekki stöðvar það (flest) fólk að versla við fyrirtæki sem framleiða vöru sína í asíu og afríku þar sem vitað er að börn standa undir framleiðslunni. En nóg um það í bili....
Svona aðeins á léttari nótum, þá finnst mér alltaf jafngaman að mótsögnunum sem fólk lætur út úr sér. T.d. leiðinleg skemmtun... felst ekki í orðinu skemmtun að hún sé skemmtileg?? eins er með gæði... léleg gæði eru ekki til... í orðinu gæðum felst það að um sé að ræða gott, enda góður kominn af gæðum.
Annars er snúllan mín litla öll að koma til og hlakkar mikið til að fara á leikskólann á morgun öskudag í skúbídú búningnum sem hún fékk lánaðan hjá Alexander frænda. Loksins kom það sér vel að eiga yngri frænda sem er mikið stærri;)
Bloggar | 21.2.2007 | 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Enn ein helgin að baki. Hófst svo sem eins og hver önnur, vinnan, ólympíustærðfræði, sækja Fönnsu, ræktin. Fannsan mín var hálfslöpp þegar við vorum búnar í ræktinni og vildi frekar fara heim heldur en í fyrirhugaða ísferð í Vesturbæinn, þá vissi ég að eitthvað var að. Þegar líða tók á nóttina versnaði snúllunni minni og eldsnemma á laugardagsmorgun vorum við mættar á bráðamóttöku barna á Landsspítalanum. Fannsa fékk ventolin og hresstist, við þurftum samt að bíða heillengi, eða þar til súrefnismettunin var orðin nægjanleg, um fjögur leytið. Dóra hjúkurnarfræðingur var ofsalega almennileg við okkur mæðgurnar og við fengum á endanum stofu þar sem við gátum hvílt okkur og horft á teiknimyndir. Ég spáði svolítið í aðstöðuna þegar ég var þarna. Starfsfólkið var mjög indælt og græjurnar virtust virka eins og þær áttu, en .... þegar við komum þá komum við að bráðamóttöku barna, en hún opnar ekki fyrr en kl. 10. Ég varð því að labba með fárveikt barnið í fanginu bakvið gamla spítalann og inn þar. Síðan tók við langur gangur tilbaka að innanverðu. Eins og ég segi allir voru voða góðir við okkur þarna inni þegar við loksins komumst á staðinn. Við vorum á spítalanum í 9 tíma, ekki var okkur boðið neitt að borða, en ég fékk kaffisopa skömmu eftir komuna, en Fannsa ekkert. Ég var reyndar svo heppin að eiga góða að og gat sent eftir smá snarli handa okkur. Við vorum samt voða fegnar þegar við komumst aftur heim.
Ég held samt að Auður skólastjóri og Fanney dóttir mín hafi gert með sér samkomulag, því þetta er í þriðja sinn sem við þurfum á bráðavaktina, og það er alltaf um helgar.
Og þá að júróvisjón. Eiríkur Hauks á leið í Júróvisjón. Mér finnst við Íslendingar í vali okkar á júróvisjónlögum vera dáldið á eftir. Síðast vann rokklag og nú ætlum við að senda rokklag. Ekki það að mér finnist lagið hans Eiríks ekki gott, ég hefði valið það í annað sætið. Ég hélt með Heiðu og Dr. Gunna. Mér fannst það lag hresst og skemmtilegt og þau skötuhjú bæði frumleg og einstaklega skemmtileg. Ég held að þau hefðu getað komið Íslandi á kortið. Ég hef samt fulla trú á Eika og hans gengi og óska þeim alls hins besta í Helsinki.
Vitiði hvað... Haldið þið ekki að ég hafi lagt leið mína í efri byggðir aftur... í sama mánuðinum omg, þetta hefði nú einhvern tímann þótt til tíðinda. Ég rataði næstum því... þurfti bara að snúa einu sinni við áður en ég komst á leiðarenda. Þegar ég var komin á leiðarenda ákvað ég að taka enn meiri áhættu í lífinu að ráði húsráðanda og skellti mér upp í mosó að versla í flottu Krónu búðinni sem þar er, ég verð að segja það, með flottari lágvörumatvöruverslunum sem ég hef séð. Ég lenti náttúrulega í klandri á leiðinni og fór að efast um fyrirætlan þess sem sendi mig í ferðina, sá fyrir mér hvernig hann ætlaði að stela Fanneyju og selja hana til Kína fyrir offjár... þar sem ég sá glitta í Krónubúðina mundi ég náttúrulega að lítil eftirspurn er eftir stúlkubörnum í Kína, og verlsaði því alsæl í þessari flottu búð;)
P.s. lesið endilega pistilinn aftan á Fréttablaðinu í dag, algjör snilld með nöfn stjórnmálaflokkanna;)
P.s.s. Dexter byrjar í kvöld. Ég ætla að fylgjast með því bókin var mjög góð. Skemmtileg alltaf þessi hugmynd um "andhetjuna". Eins og með Hróa Hött hann stal frá þeim ríku og því var það í lagi. Dexter drepur ljótu kallana og því er auðvelt að hafa samúð með honum og verkum hans. Sýnir fram á tvöfeldni siðgæðisins.
Bloggar | 18.2.2007 | 21:30 (breytt kl. 21:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja, þá er kjarabaráttan að fara á fullt aftur. Við tökum lífinu með stóískri ró í Laugalækjarskóla, enda samansafn einstaklega faglega þenkjandi og frábærra kennara. Við fréttum utan að okkur að kennarar í öðrum skólum séu að spá í að segja upp, hætta og ýmislegt þaðan af verra. Það er samt löngu vitað að við í Laugalækjarskóla köllum ekki allt ömmu okkar þegar kemur að samstöðu, sbr. verkfallið 2004.
Ég verð nú að viðurkenna að manni getur nú samt sárnað. Það virðist stundum vera þannig að fólk hafi sérstaklega gaman að því að kasta skít í kennara. Ég er nú reyndar á því að það sé fólk sem t.d. ekki á börn í grunnskóla í dag og viti hreinlega ekki hvaða starf á sér stað í grunnskólum landsins. Með yfirlýsingum sínum opinberar það einungis fávisku sína. Í þjóðarsálinni (eða einhverjum álíka gáfulegum þætti) var t.d. maður með yfirlýsingar, ef kennarar væru svona óánægðir með launin sín þá ættu þeir bara að fara að vinna eitthvað annað (ótrúúúlega gömul tugga, en...) nóg væri um vinnu í landinu enda væru Pólverjar fluttir inn í förmum til að metta þörf markaðarins fyrir vinnuafl. Já, rosalega sniðugt. Við kennarar förum þá í byggingarvinnu og Pólverjarnir fara að kenna í skólunum (ætli maðurinn hafi ekki heila??) Ég held að svipur kæmi á marga ef ekki fengjust íslenskumælandi kennarar í skólana. Reyndar er t.d. í framhaldsskólunum nokkuð um erlenda kennara og í háskólunum, t.d. hef ég einungis einn íslenskan prófessor í HR. Þegar íslensku útlendingarnir tala góða íslensku er þetta í lagi en þangað til..
Í miðri svartsýnisumræðunni um launin vorum við hér í Laugalæk rækilega minnt á hvers vegna þetta starf er svo gefandi og yndislegt að við viljum ekki hætta því. Hann Jón samkennari minn varð fimmtugur í gær. Frábær kennari og manneskja yfirleitt. Nemendur hans Jóns komust að þessu og mættu með 50 stk. af túlipönum og kökur og slógu upp veislu fyrir kennara sinn. Einnig fékk hann bol sem sérstaklega var hannaður af nemendum í tilefni dagsins. Úff, púff, manni bara hlýnar um hjartarætur;)
Jæja best að fara að bretta upp ermar og fara að gera eitthvað af viti....
Bloggar | 16.2.2007 | 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagarnir eru hverjir öðrum líkir... ég fer í vinnuna, skólann, heim að læra.... og tíminn líður ótrúlega hratt. Febrúar bara hálfnaður og vetrarfríið innan seilingar. Í dag barst bæklingur frá félagi grunnskólakennara þar sem vinnurammi kennara var skýrður fyrir þeim sem ekki þekkja til. Það er ótrúlegt að enn skuli vera til fólk sem heldur að kennarar vinni ekkert og séu þess á milli í fríi. Þegar ég reyni að útskýra að við fáum 6 vikna sumarfrí eins og flestir á vinnumarkaðinum, hnussa hinir fáfróðu og benda á vetrarfríið... þessa 3 daga;) En það er jákvætt að kjarabaráttan skuli fara fram á þessum nótum, því þetta er jú það sem kennarar eru færastir í ... að fræða aðra. Ég fæ samt nettan fortíðarfiðring og minnist verkfallsins 2004. Upplifunin og geðshræringarnar sem fylgdu því eru ekki gleymdar. Það var ótrúlegt að taka þátt í verkfallinu sem eflaust mun rata á spjöld sögubóka framtíðarinnar.
Við útdeildum stöðumati í skólanum í dag, og ég komst að því að segi alltaf sama brandarann við þetta tilefni. Mér þykir hann alltaf jafn fyndinn en krökkunum finnst hann orðinn frekar súr... Þannig er nefnilega að nemendur fá einkunn fyrir virkni í tíma. Virknin getur verið góð, sæmileg eða óviðunandi. Mér finnst þetta óskaplega fyndið í tengslum við skólasund, það er ekki í uppáhaldi hjá sumum nemendum og því fá þeir Ó fyrir virkni og þá segi ég... Hvernig er hægt að fá Ó í virkni... drukknar maður þá ekki bara.... hahahahahahahahahahahah;) Ótrúlega fyndin (not-segja krakkarnir)
Bagga Stærðfræðinörd og stollt af því.
Bloggar | 15.2.2007 | 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Tenglar
Shop till you drop
Bloggvinir mínir
- Hafdís egilsstaðapæja fréttir að austan;)
- Fía pía sæta frænka Þetta er í genunum;)
- Kibba sæta Kristjana vinkona
- Linda sæta
- Ásta vinkona
Tenglar
- Kroppurinn í form
- Ef þið hafið ekkert betra að gera;) Tickle prófin
- Stærðfræðiorðabókin Ertu að lesa enska stærðfræði??
- Grafateiknir Forrit sem teiknar gröf
- Tær snilld
- http://
- Draumurinn Mig dreymir, ég óska...
- áhugamál ég safna og ég safna og ég safna
- Borgar sig að fylgjast með... Tíska, strákar, matur, strákar, snyrtivörur...
- Skólinn minn
- Hinn skólinn minn Flott stelpan, mar...
- Sumarfríið mitt;) Hingað erum við mæðgurnar að fara í sumar;)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 457
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar