Guð segir: Það á að giftast mað!!

Heimurinn er naflinn á mér! eða svo mætti halda. Ég hef bara ekki nægan tíma til að fylgjast nógu vel með því sem er að gerast utan sjálfsins til að geta sagt mikið af viti um það. Ég verð því að láta nægja að rausa um það sem gerist á mínu heimasvæði.
Allir eru óléttir í dag. Hvert sem litið er blasa við bumbur í mismunandi stærðum og gerðum, það er sama hvort um er að ræða fjölskylduna eða vinahópinn, óléttuveikin smitast mjög hratt. Ég hef ekki enn fengið þessa flensu, dóttur minni til mikillar mæðu. Hún potar reglulega í magann á mér og spáir mikið í hvort hann sé ekkert að stækka. Um daginn ákvað ég að útskýra fyrir henni að ég ætti ekki von á barni í dag og að öllum líkindum ekkert á næstunni heldur. Dóttir mín er 4 ára svo ég notaði myndlíkingu og sagði henni að til að ég gæti fengið barn, þyrfti ég að fá fræ frá manni sem svo yxi og yrði að barni. Henni fannst þetta nú ekki mikið mál, gæti ég ekki bara hringt í pabba hennar og fengið fræ frá honum;) uhm... neiBlush 

Samskipti kynjanna og manneskna yfirleitt geta verið flókin, eða raunar mjög einföld þegar maður er 4 ára. Við mæðgurnar sátum heima hjá Fanneyju systur um daginn og sáum þar líka þessa fallegu mynd af þeim hjónum sem tekin var á 50 afmæli systur minnar. Þau voru náttúrulega óskaplega fín og falleg, og dóttir mín segir upprifin "Nei, voruð þið að gifta ykkur!!". Fanney systir sagði henni þá að þau Björn hefðu verið gift síðan elstu menn muna og ég fann gamla giftingamynd þar sem ungu brúðhjónin standa ásamt föður brúðarinnar. Ég sýni dóttur minni myndina og segi henni að þetta sé frá giftingu þeirra hjóna. Hún skoðar myndina áhugasöm og spyr svo systur mína hvort hún hafi ekki viljað giftast heldur hinum manninum. Fanney systir segir náttúrulega nei, þetta sé pabbi hennar og maður giftist ekki pabba sínum. Dóttur minni fannst það frekar skrítið, og ég sagði henni þá að það væri nú leiðinlegt því við (ég og hún) ætluðum að gifta okkur, sem var löngu ákveðið. Þá horfir hún á mig og segir: Mamma við getum ekki gift okkur, Guð segir það á að giftast mað! (kann ekki alveg að beygja orðið maður). Ég horfi á hana og spyr, nú hver segir það. Hann Högni á leikskólanum (líka 4ra). Púff, mikið var ég fegin að það var hann Högni en ekki sonur prestsins (sem einnig er á leikskólanum) því ég er ekki viss um að ég hefði getað sannfært hana um að ég vissi meira um Guðsvilja en prestssonurinn. Ég gerði mitt besta til að sannfæra dóttur mína að Guði væri alveg sama hvors kyns manneskjan væri sem hún giftist svo lengi sem þær elskuðu hvor aðra og væru góðar hvor við aðra. Maður verður að fylgjast vel með ætli maður að ala barnið sitt upp án allra fordóma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er greinilega hörð samkeppni við leikskólann um uppeldið ;)

Ásta (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband