ekki eru öll verðmæti í peningum talin...

Jæja, þá er kjarabaráttan að fara á fullt aftur. Við tökum lífinu með stóískri ró í Laugalækjarskóla, enda samansafn einstaklega faglega þenkjandi og frábærra kennara. Við fréttum utan að okkur að kennarar í öðrum skólum séu að spá í að segja upp, hætta og ýmislegt þaðan af verra. Það er samt löngu vitað að við í Laugalækjarskóla köllum ekki allt ömmu okkar þegar kemur að samstöðu, sbr. verkfallið 2004.

Ég verð nú að viðurkenna að manni getur nú samt sárnað. Það virðist stundum vera þannig að fólk hafi sérstaklega gaman að því að kasta skít í kennara. Ég er nú reyndar á því að það sé fólk sem t.d. ekki á börn í grunnskóla í dag og viti hreinlega ekki hvaða starf á sér stað í grunnskólum landsins. Með yfirlýsingum sínum opinberar það einungis fávisku sína. Í þjóðarsálinni (eða einhverjum álíka gáfulegum þætti) var t.d. maður með yfirlýsingar, ef kennarar væru svona óánægðir með launin sín þá ættu þeir bara að fara að vinna eitthvað annað (ótrúúúlega gömul tugga, en...) nóg væri um vinnu í landinu enda væru Pólverjar fluttir inn í förmum til að metta þörf markaðarins fyrir vinnuafl. Já, rosalega sniðugt. Við kennarar förum þá í byggingarvinnu og Pólverjarnir fara að kenna í skólunum (ætli maðurinn hafi ekki heila??) Ég held að svipur kæmi á marga ef ekki fengjust íslenskumælandi kennarar í skólana. Reyndar er t.d. í framhaldsskólunum nokkuð um erlenda kennara og í háskólunum, t.d. hef ég einungis einn íslenskan prófessor í HR. Þegar íslensku útlendingarnir tala góða íslensku er þetta í lagi en þangað til..

Í miðri svartsýnisumræðunni um launin vorum við hér í Laugalæk rækilega minnt á hvers vegna þetta starf er svo gefandi og yndislegt að við viljum ekki hætta því. Hann Jón samkennari minn varð fimmtugur í gær. Frábær kennari og manneskja yfirleitt. Nemendur hans Jóns komust að þessu og mættu með 50 stk. af túlipönum og kökur og slógu upp veislu fyrir kennara sinn. Einnig fékk hann bol sem sérstaklega var hannaður af nemendum í tilefni dagsins. Úff, púff, manni bara hlýnar um hjartarætur;)

Jæja best að fara að bretta upp ermar og fara að gera eitthvað af viti....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband